Hollenskur dómstóll mun í dag úrskurða um hvort stöðva eigi sölu ABN Amro á bandaríska bankanum LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarða Bandaríkjdala, en salan var hluti af samkomulagi sem bankinn gerði við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Á sama tíma er fyrirtækjahópurinn sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander í kapphlaupi við tímann um að leggja lokahönd á yfirtökutilboð sitt í hollenska bankann, en það verður að vera lagt fram fyrir miðnætti á sunnudaginn.

Framkvæmdastjóri ABN, Rijkman Groenink, krafðist þess á þriðjudaginn að RBS - sem fer fyrir hópnum - gefi nákvæmari upplýsingar um áform sín en hópurinn hefur gefið það út að hann hyggist búta niður starfsemi ABN Amro. Breski vogunarsjóðurinn The Children´s Investment Fund, sem á eitt prósent hlut í bankanum og hefur barist hart fyrir því að samið verði við RBS-hópinn í stað Barclays, kallaði eftir því á þriðjudaginn að stjórn ABN myndi segja Groenink tafarlaust upp störfum og taka yfir söluferlið. Í bréfi sem sjóðurinn sendi frá sér til Arthur Martinez, stjórnarformanns ABN, segir að "Groenink hafi misst allan trúverðgleika og hafi mistekist að hafa hagsmuni hluthafa að leiðarljósi í störfum sínum."

Í bréfinu sem Groenink sendi hins vegar RBS-hópnum - og Financial Times komst yfir - kemur fram að hann hafi ákveðnar efasemdir um hvernig bankarnir hyggist fjármagna yfirtökuna á ABN, en búist er við því að yfirtökutilboðið verði fjármagnað að 70% hluta með peningum og afgangurinn með hlutabréfum í RBS. Margir hluthafar í ABN Amro hafa aftur á móti ásakað Groenink um að vera með þessum bréfaskriftum að reyna að hindra með óeðlilegum hætti yfirtöku RBS-hópsins.