Fjármálaráðherra Írlands, Michael Noonan, segir að gagnrýnendur skattastefnu Írlands séu með gamaldags og óréttláta framsetningu á málinu.

Írska þingið hefur verið kallað saman til að ræða nýlegan úrskurð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að landið hafi hyglað Apple skattalega sem nemi 13 milljörðum evra, eða 1,7 milljarða króna.

Áfrýja úrskurði um meiri skatttekjur

Kemur þetta í kjölfar þess að írsk stjórnvöld hafa ákveðið að áfrýja úrskurðinum, en fjármálaráðherrann segir að Apple hafi ekki verið hyglað sérstaklega.

„Það er einfaldlega rangt að Írland hafi hyglað Apple sérstaklega,“ segir hann. „Viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar hefur stundum málað gamaldags og ósanngjarna mynd af skattastefnu Írlands. Þetta er mynd sem gengur þvert á sönnunargögnin og horfir framhjá aðgerðum okkar síðustu árin.“

ESB gangi inn á valdsvið fullvalda ríkja

Sagði hann að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar gengi inn á valdasvið fullvalda ríkja um skattamál og hún fæli í sér þversagnarkenndar hugmyndir um hvar Apple skuldi skatt.

Úrskurðurinn er ekki gerður opinber, en meðlimir Dáil, írska þingsins fengu í hendur 16 síðna skýrslu fjármálaráðuneytisins um úrskurðinn. Hefur ríkisstjórnin beðið um þingsályktunartillögu um stuðning við ákvörðun þess um að áfrýja úrskurðinum.

Brjáluð, pólítísk ákvörðun

Áður hafði Forstjóri Apple, Tim Cook sagt að hann væri sannfærður um að úrskurðinum yrði snúið við í áfrýjun, og kallaði hann ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar „brjálaða“ og „pólitíska.“

Upphæðin sem Apple á að skulda írska ríkinu samkvæmt úrskurðinum myndi nema öllum heilbrigðiskostnaði ríkisins, eða 66% af félagslegum kostnaði ríkisins. Jafnframt er þetta andvirði 15 milljón iPhone síma, og 27% af hagnaði fyrirtækisins á árinu 2015.

Margrethe Vestager, sem stýrir samkeppnismálum í framkvæmdastjórninni hafnaði orðum Tim Cook og segir að niðurstöðuna „byggða á staðreyndum málsins, ef horft er til sölu Apple á alþjóðavísu og hvernig... þeir eru skráðir á Írlandi.“