*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 21. maí 2013 12:02

Úrskurður í Kaupþingsmálinu kveðinn upp

Í Héraðsdómi verður í dag kveðinn upp úrskurður um framlagningu gagna í Kaupþingsmálinu.

Ritstjórn

Í dag verður tekið á ágreiningi milli ákæruvaldsins og sakborninga í Kaupþingsmálinu svokallaða um það hvaða gögn saksóknari megi leggja fram í málinu, en úrskurður þar að lútandi verður kveðinn upp klukkan þrjú í dag.

Karl Axelsson, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, segir málefnið svipað þeim sem komið hafa upp í sambærilegum dómsmálum áður. „Þetta snýst um það hvort saksóknari megi leggja fram þau gögn sem hann vill leggja fram, t.d. lögfræðilegar álitsgerðir.“

Málið snýst um umfangsmikla meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik sem eiga að hafa átt sér stað á mánuðunum fyrir hrun en í málinu eru níu fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur Kaupþings ákærð fyrir þessi meintu brot. Auk Magnúsar eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, meðal sakborninga.

Er stjórnendum Kaupþings og starfsmönnum eigin viðskipta bankans gert að sök að hafa með markvissum hætti reynt með ýmsum hætti að stemma stigu við lækkun hlutabréfaverðs eða koma í veg fyrir hana. Þetta á að hafa verið gert með því að halda úti stórum kauptilboðum á markaði, sem voru endurnýjuð jafnharðan og þeim var tekið og með því að setja inn tilboð í uppboðum fyrir og eftir lokun markaða.