Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að þríbólusettur og margskimaður maður skyldi sæta sóttkví í 21 dag.

Þrátt fyrir að sóttkví skuli lögum samkvæmt ekki vera lengri en 15 dagar var ákvörðun sóttvarnalæknis talin lögum samkvæmt þar sem maðurinn hafði verið útsettur fyrir smiti þrisvar sinnum og því ekki um eina samfellda ákvörðun að ræða. Landsréttur leit því ekki til þess að maðurinn hefði verið í sóttkví frá 11. desember og horfði í reynd bara á ákvörðun sóttvarnalæknis frá 24. desember í úrskurði sínum.

Sóttvarnalæknir hafði skikkað manninn í sóttkví til 2. janúar 2022 en í úrskurðarorði Héraðsdóms Reykjaness var ranglega tekið fram að maðurinn skyldi sæta sóttkví frá 19. til 30. desember en að ákvörðun falli niður gangist maðurinn undir PCR-próf fyrr. Í héraði styttist sóttkví mannsins því þannig að henni lýkur á miðnætti í kvöld, 30. desember.

Í úrskurði Landsréttar láðist enn fremur að kveða á um að lok sóttkvíar væru háð niðurstöðu PCR prófs og lýkur því sóttkví mannsins á miðnætti í kvöld. Því er ljóst að málinu verður ekki skotið til Hæstaréttar, enda lögvarðir hagsmunir ekki lengur til staðar eftir að sóttkví lýkur.

Uppfært 21:00: Annar fjölskyldumeðlimur mannsins greindist í kvöld með Covid-19 og bætast því 8 dagar við sóttkví mannsins frá deginum í dag. Hann hefur tjáð sig um málið á Twitter og segir þar að ekki sé útlit fyrir að heimild sé til staðar til þess að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.

Upplýstur um „framlengda" sóttkví

Maðurinn var upphaflega skráður í sóttkví frá 11. til 25. desember sl. vegna Covid-19 smits dóttur hans sem greinst hafði deginum áður. Hinn 15. desember greindist sonur mannsins einnig og loks eiginkona hans 19. desember.

Á netspjalli covid.is var maðurinn fyrst upplýstur um að sóttkví hans hefði verið framlengd og að útsetningar dagur hans væri nú skráður 19. desember í stað 11. desember. Óskaði maðurinn eftir að fá ákvörðun senda skriflega sem hann fékk ekki. Í framhaldinu sendi hann tölvupóst á embætti landlæknis á Þorláksmessu og fór fram á formlega ákvörðun sóttvarnarlæknis, sem barst á aðfangadag.

Ein eða þrjár stjórnvaldsákvarðanir?

Maðurinn hafnaði því að um væri að ræða þrjár ákvarðanir sem lægu til grundvallar sóttkví hans og taldi að um væri að ræða eina og sömu ákvörðunina. Honum hafi aldrei verið tilkynnt um aðrar ákvarðanir en þá sem tilkynnt var um 11. desember, honum hafi aðeins verið tjáð að sóttkví lengdist eftir að hann spurðist fyrir um stöðu máls hjá starfsmönnum landlæknis á netspjalli covid.is. Af því væri ekki annað að sjá en að um væri að ræða sömu ákvörðun.

Taldi hann ákvörðunina bersýnilega á skjön við 15 daga tímaramma sóttvarnalaga um sviptingu frelsis, sem væri óundanþægur og færi fyrir lítið ef sóttvarnalækni væri heimilt að framlengja frelsissviptingu einstaklinga út í hið óendanlega. Hefði það verið vilji löggjafans hefði honum verið í lófa lagið að kveða svo á um í lögum.

Líkt og fyrr segir horfði Landsréttur aðeins til ákvörðunar sóttvarnalæknis frá 24. desember.

Taldi ekki gætt að meðalhófi

Maðurinn taldi sóttvarnalækni ekki hafa gætt meðalhófs við ákvörðun um sóttkví. Maðurinn væri án einkenna, þríbólusettur og hefði margsinnis gengist undir próf sem öll reyndust neikvæð, síðast 26. desember. Smit fjölskyldumeðlima hafi öll átt sömu upptökin sem hann hefur verið útsettur fyrir síðan 10. desember án þess að smitast.

Hann taldi úrskurð og röksemdir sóttvarnalæknis í reynd ekki samræmast markmiði sóttvarnaaðgerða um vernd lýðheilsu og vísaði til skýrslu Embættis landlæknis um að einstaklingar í sóttkví séu í aukinni áhættu á þunglyndi og áfallastreitu.

Sagði hann að líta bæri til nýlegrar framkvæmdar í Danmörku þar sem þeim sem deila heimili með smituðum er gert að sæta sóttkví í fjóra daga reynist skimun neikvæð á þeim degi en þríbólusettir þurfi ekki að sæta sóttkví undir neinum kringumstæðum. Jafnframt vísaði hann til orða sóttvarnalæknis frá 28. desember þar sem hann sagði til skoðunar að stytta sóttkví og einangrun hérlendis.

Landsréttur féllst ekki á sjónarmið mannsins og staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, líkt og fyrr segir.

Fréttin hefur verið uppfærð með ítarlegri upplýsingum.