Fótboltasjúklingar sem ætla að bregða undir sig fæti og sjá úrslitaleikinn í Meistarakeppninni í Moskvu milli Manchester United og Chelsea í næstu viku eiga margir eftir að reka sig á veggi.

Þeir sem ekki hafa þegar tryggt sér miða á leikinn þurfa líklega á yfirvinnu að halda því miðaverð hefur rokið upp á svörtum markaði og það hefur gistikostnaður á hótelum einnig gert.

Verð á flugfarmiðum er sömuleiðis óheyrilega dýrt og ofan á þetta bætist að það er engan veginn hlaupið að því að fá vegabréfsáritun til föðurlands Romans Abramovich, eiganda Chelsea.

Leikurinn fer fram á Luzhniki leikvanginum í Moskvu og er þetta í fyrsta sinn sem tvö ensk lið leika saman í úrslitum keppninnar. Búist er við að allt að 42 þúsund enskir knattspyrnuáhugamenn ætli á leikinn 21. maí nk.

Enn er verið að bjóða áhugasömum miða á leikinn en verðið er komið upp í 5 þúsund pund, 765 þúsund ÍSK. Opinbert verð aðgöngumiða er á bilinu 63 til 158 sterlingspund.

Bandaríska aðgöngumiðasalan Ticketsolutions.com auglýsir þannig sex VIP-miða á 10.000 dollara hvern en ódýrustu miðarnir eru á 5.020 dollara.

1st4 Football Tickets í Bretlandi býður miða á svæði Chelsea fyrir aftan markið á 1.125 sterlingspund og á 3.750 pund fyrir miða með fullri þjónustu.

Önnur vefsíða, Cheap-Tickets4u, er með til sölu 150 miða á leikinn og verðið á hverjum miða er frá 2.500 dollurum til 8.000 dollara.

Talið er að sú staðreynd að það er Chelsea sem leikur til úrslita hafi þau áhrif að ýta verði á aðgöngumiðum upp. Rússneskir auðkýfingar muni blanda sér í slaginn um aðgöngumiða við venjulega borgara því allir vilja þeir sjá liðið sem landi þeirra Roman Abramovich á.

Miðaverð er þó aðeins byrjunin á vandræðum enskra áhangenda sem vilja sjá lið sitt lyfta bikarnum í Moskvu. Til að fá vegabréfsáritun þurfa þeir að framvísa staðfestri pöntun á gistingu og flugmiða. Óttast er að sá mikli fjöldi vegabréfsáritana sem nauðsynlegur er vegna áhangenda frá Englandi valdi töfum á útgáfu þeirra jafnvel þótt rússnesk stjórnvöld hafi heitið því að hraða afgreiðslu þeirra.

Fréttaritari BBC í Moskvu, Rupert Wingfield-Hayes, segir að útgáfa á svo mörgum vegabréfsáritunum á svo skömmum tíma valdi ringulreið í skipulagi þar í landi. En það eru ekki einungis aðgöngumiðarnir og vegabréfsáritanirnar sem knýja aðdáendur til að seilast djúpt í vasa sína.

Grunnverð á flugmiðum til Moskvu á leikdag er um 900 pund á mann. Moskva er ein dýrasta borg heims fyrir erlenda ferðamenn. Gisting á hóteli kostar frá 150 pundum nóttin upp í 500 pund.

Bæði Manchester United og Chelsea hafa brugðist við þessu með því að skipuleggja ferðir fyrir sína áhangendur.

United hefur lofað sínum stuðningsmönnum aðstoð við að fá vegabréfsáritun og Chelsea hefur auglýst dags- og tveggja daga pakkaferðir frá Gatwick, Luton og Stansted flugvöllum sem innifela miða á leikinn og kosta frá 749 pundum. Forgang hafa þó ársmiðahafar.