Ingimundur Friðriksson, bankastjóri Seðlabankans, segir að bankastjórn Seðlabanka Íslands hafði orðið þess áskynja í samtölum við bankastjóra og aðra yfirmenn seðlabanka annarra landa að mjög vaxandi andstöðu gætti við innlánasöfnun íslensku bankanna.

Þetta kemur fram í erindi sem stóð til að Ingimundur flytti á ráðstefnu í Finnlandi í dag en verður ekki. Erindið er gert opinbert á heimasíðu Seðlabankans. Ingimundur bendir á að þessi andstaða hafi eflaust átt ýmsar skýringar, m.a. þá að bankar á þeim svæðum þar sem íslensku bankarnir hófu söfnun innlána kveinkuðu sér undan skyndilegri samkeppni og komu óánægju sinni á framfæri við yfirvöld.

"Önnur skýring er sú að þar sem um innlánasöfnun í dótturfyrirtækjum var að ræða jukust mögulegar skuldbindingar innlánstryggingarkerfisins í viðkomandi landi. Í þriðja lagi kann sókn í innlán með tiltölulega háum vöxtum að hafa verið talin merki um veikleika bankanna. Í fjórða lagi var lýst áhyggjum af íslensku innlánstryggingarkerfi vegna innlána í útibúum erlendis. Þó var ljóst að kerfið uppfyllti skilyrði evrópskra tilskipana. Þær kváðu á um að stjórnvöld skyldu koma á slíku kerfi en ekki er vikið að ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingum þess og alls ekki í kerfisáfalli."