Líftæknifyrirtækið Urður Verðandi Skuld og samstarfsaðilar þess hafa hlotið þrjár milljónir evra eða sem nemur 230 milljónum íslenskra króna í styrk frá Evrópusambandinu til rannsókna á erfðaþáttum við myndun krabbameins í brjóstum og blöðruhálskirtli, samkvæmt tilkynningu frá UVS.

Styrkurinn er ætlaður til að rannsaka hlut ákveðinna þátta erfðaþáttanna í myndun meinanna sem eru algengustu krabbameinin sem greinast í Evrópu. Jafnframt verður þáttur viðkomandi erfðaþátta við mismunandi svörun sjúklinga við meðferð einnig metinn.

Samstarfsaðilar UVS eru þrír:Lífupplýsingafyrirtækið Bioinformatics Aps í Árósum í Danmörku, Rannsóknastofa Dr. Jotun Hein við tölfræðideild Háskólans í Oxford í Englandi og rannsóknastofa Dr. Lambertus Kiemeney við Radboud University Nijmegen Medical Center í Hollandi, eftir því sem kemur fram í tilkynning frá UVS.

UVS er líftæknifyrirtæki sem vinnur að rannsóknum á líffræði krabbameins í því augnamiði að finna leiðir til greiningar og meðferðar sjúkdómsins. Viðskiptablaðið sagði í síðustu viku frá viðræðum deCODE og UVS um hugsanlega yfirtöku deCODE á félaginu.