Sigurlína Ingvarsdóttir hefur haslað sér völl sem einn af helstu leiðtogum í tölvuleikjaiðnaðinum á alþjóðavísu. Hún starfar nú sem yfirframleiðandi hjá FIFA í þróunarteymi Electronic Arts í Vancouver í Kananda. Hún segist kunna vel við sig í þessari framsæknu tækniborg, kveðst helst vilja vera í framlínunni og vinna við það nýjasta í tölvuleikjageiranum.

Sigurlína lauk BSc gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og í kjölfarið hóf hún störf sem verkefnastjóri hjá samheitalyfjafyrirtækinu Deltu, forvera Actavis, þar sem hún starfaði um hríð áður en hún fór yfir í tölvuleikjaiðnaðinn. Hún starfaði hjá CCP og Ubisoft en bauðst síðan tækifæri að ganga til liðs við sænska fyrirtækið DICE, dótturfyrirtæki EA, þar sem hún stýrði framleiðslu tölvuleiksins Star Wars Battlefront. En fréttir af þeim leik hreyfðu við hlutabréfaverði á sínum tíma. Fyrir um tveimur árum tók hún við sem yfirframleiðandi hjá FIFA. Hennar hlutverk þar er að þróa framtíðarstefnumótun og efnistök leiksins.

FIFA er einn mest spilaði leikur í heiminum í dag. Þróunarteymi FIFA er í Rúmeníu og einnig í Vancouver í Kananda en þar er Sigurlína búsett. Á dögunum var hin stóra tölvuleikjaráðstefna E3 haldin þar sem nýjasta uppfærsla leiksins FIFA 19 var kynnt. Ýmsar nýjungar koma fram í leiknum en þar ber helst að nefna að Meistaradeildin er komin inn í nýju uppfærsluna en að sögn Sigurlínu er það eitthvað sem spilarar leiksins hafa óskað eftir lengi. Þegar FIFA 18-uppfærslan var tilkynnt fyrir ári var ljóst að íslenska landsliðið væri í fyrsta sinn komið inn í leikinn. Var það í kjölfar glæsilegrar frammistöðu liðsins á Evrópumeistaramótinu 2016 sem vakti heimsathygli. „Í kringum 2015 þegar ég var enn að vinna að Battlefront og rakst á núverandi samstarfsfélaga mína þá nefndi ég það  þá tiltölulega snemma að við yrðum nú að fara að setja Ísland í FIFA og það var mikið hlegið að því til að byrja með. Þetta var lengi vel svona brandari okkar á milli og ég grínaðist mikið með þetta. En ég vakti þó athygli á því að íslenska landsliðið væri að standa sig vel og svo í kjölfar Evrópumótsins þá áttuðu þeir sig á því að það væri góð hugmynd að setja Ísland inn í leikinn því það væri svo stór aðdáendahópur í kringum liðið,“ segir Sigurlína

Tövluleikir að þróast yfir í samskiptaform

Að sögn Sigurlínu erum við að horfa fram á miklar breytingar í stafrænni tækni. Þegar 5G kemur inn á markaðinn þýðir það að gagnaflutningsmagn mun aukast gífurlega mikið. Hún segir að það muni gera alla fjölspilun mikið öðruvísi. „Við sjáum að tölvuleikir eru að þróast út í að verða eins konar samskiptaform. Þeir sem spila leikina eru oft á tíðum í samskiptum í gegnum leikinn. Þetta er sérstaklega áberandi í leikjum eins og EVE Online. Þá spila leikmennirnir leikinn en eru aðallega að hafa samskipti sín á milli og leikurinn í sjálfu sér verður ekki lengur aðalatriðið heldur frekar samskiptin í gegnum leikinn.“ Hún tekur dæmi af föður sem bjó í öðru landi en sonur hennar og hóf síðan að spila tölvuleik með honum og notaði tölvuleikinn sem eins konar samskiptaform. „Tölvuleikir eru alltaf að verða vinsælli og tímarnir þar sem þeir voru aðeins spilaðir af afmörkuðum hópi ungra karlmanna eru liðnir. Þessi iðnaður er alltaf að ná til víðari og fjölbreyttari hóps sem er afar jákvæð þróun,“ segir Sigurlína og bendir á að sú kynslóð sem nú er að vaxa og hefur alist upp með snjallsíma ávallt við höndina sé mjög fær í að hagnýta stafræna tækni. Þá sé sú tækni öðruvísi en hjá þeim sem eru eldri eru.

Vinnumarkaðsmenning afar ólík

Sigurlína segir mikinn mun vera á skandinavíska vinnuumhverfinu og því norður-ameríska. „Það kom mér skemmtilega á óvart hversu mikill munur er á vinnukúltúr þessara svæða. Það er mikill munur á Íslandi og Svíþjóð hvað það varðar. Munurinn er svo enn meiri milli Svíþjóðar og Kanada. Vinnumarkaðurinn hér í Kanada er á margan hátt fagmannlegri og skipulagðari. Á Íslandi er „þetta reddast“ viðhorf frekar ríkjandi en á móti kemur að hann er sveigjanlegri og að mörgu leyti betri að aðlaga sig að ýmsum aðstæðum sem geta komið upp og bregðast við með skömmum fyrirvara,“ segir hún. „Ferlastjórnunin hér í Kanada er sú agaðasta sem ég hef komist í kynni við, jafnvel agaðari en í lyfjaframleiðslu, allt gengur mjög hratt fyrir sig. Mér finnst ég finna talsvert fyrir því að ég er að vinna  í mjög stóru landi þar sem mikil áhersla er lögð á fagmennsku,“ segir hún og bætir við að líkja megi því að fara frá íslensku fyrirtæki yfir til alþjóðlegs risa á borð við EA við það að færast úr íslensku úrvalsdeildinni og yfir í erlenda úrvalsdeild.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .