Úrvalsvísitalan stóð í 8,278 stigum við lok markaða í gær og hækkaði um 0,5% yfir daginn. Hefur hækkun vísitölunnar það sem ef er ári verið 29,1%, að því er kemur fram hjá greiningu Landsbankans. Eftir nokkuð bakslag við aflatillögur Hafrannsóknastofnunar er vísitalan komin aftur á beinu brautina.

Árshækkunin er afar mikil í alþjóðlegu samhengi og er meiri en hækkun flestra vísitalna erlendra kauphalla. Þýska DAX-vísitalan hefur þó hækkað um ríflega 20% og norsku og finnsku úrvalsvísitölurnar hafa hækkað um rúmlega 13,1% og 12,1% það sem af er ári. Meðalhækkun tólf úrvalsvísitalna landa með þróaðan fjármálamarkað er um 11%, er og er því ljóst að ávöxtun á íslenskum markaði hefur verið með ágætum.

Hækkun félaga verið misjöfn á þessu ári, og eins og gefur að skilja er vægi þeirra í vísitölunni mismikið. Eins og margoft hefur komið fram leiða íslensku bankarnir hækkun vísitölunnar, og til að mynda hefur Landsbankinn hækkað um tæplega 45% og Kaupþing banki um 32.5%.

Einnig hefur Glitnir hækkað um rúm 23%. Hækkanir þessara stóru félaga rífa úrvalsvísitöluna upp og útlit er fyrir að áframhaldandi hækkanir séu í vændum. Greiningardeildar bankanna spáðu í langtímaspám sínum að úrvalsvísitalan myndi fara yfir 8.400 stig, og er því von á áframhaldandi hækkunum.