Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 1,04% í viðskiptum upp á tæpar 380 milljónir króna í Kauphöllinni í dag. Þetta voru sem fyrr mestu viðskipti dagsins. Þá hækkaði gengi bréfa Haga-samstæðunnar um 0,78% og Eimskips um 0,77%.

Á móti hækkunum dagsins lækkaði gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 1,45%, fasteignafélagsins Regins um 1,36% og Marel um 0,31%.

Viðskipti með hlutabréf á Aðallista Kauphallarinnar námu í heildina rétt rúmum 900 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% og endaði hún í 1.198,26 stigum. Fyrir helgi fór vísitalan í fyrsta sinn yfir 1.200 stigin.