Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi endaði í 2.043,57 stigum eftir 2,90% hækkun í dag, sem er hæsta gildi sem vísitalan hefur endað í síðan hún var endurreist eftir bankahrunið. Í heildina námu viðskiptin í kauphöllinni í dag um 5 milljörðum króna.

Munaði mestu þar um 4,16% hækkun á gengi bréfa Marel, í 1,7 milljarða króna viðskiptum en bréf félagsins enduðu í 563,50 krónum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi jókst hagnaður félagsins um 14% á fyrsta ársfjórðungi miðað við fyrir ári síðan, og ýtti hækkunin strax í morgun undir gengi vísitölunnar þannig að hún fór yfir 2.000 stiga múrinn .

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reita, eða um 3,14%, upp í 82,00 krónur í 791 milljóna króna viðskiptum. Þar á eftir kom hækkun bréfa Sýnar, eða um 2,31%, í 283 milljóna viðskiptum og eru bréf félagsins nú verðlögð á 35,40 krónur.

Einungis fjögur félög lækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, Skeljungur mest, eða um 2,01% í 107 milljóna króna viðskiptum og er gengið við lok viðskiptadags nú 8,04 krónur. Næst mest var lækkun á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 1,04%, niður í 190,00 krónur, í 126 milljóna króna viðskiptum.