Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,94% frá upphafi viðskiptadagsins og stendur hún nú í 1.025 stigum. Vísitalan hefur aldrei verið hærri innan viðskiptadags.

Gamla úrvalsvísitalan sem var í gildi fyrir hrun fór hæst í rúm 9.000 stig í júlí árið 2007 og spáðu sumir því að hún myndi rjúfa 10.000 stiga múrinn. Það rættist ekki en vísitalan samanstóð öðru fremur af gömlu viðskiptabönkunum og fjármálafyrirtækjum og hrapaði hún hratt eftir því sem fjármálakreppan varð dýpri. Eftir að flest fjármálafyrirtækin fóru á hliðina árið 2008 var ný vísitala tekin upp í janúar 2009 og samanstóð hún af sex veltumestu fyrirtækjunum á markaði.

Upphafsgildi nýju vísitölunnar var 1.000 stig. Hún átti brokkgenga daga og hrundi niður í 571 stig í mars árið 2009 áður en hún tók að rísa á ný. Hún náði hæsta gildi sínu, 1.021 stigi, í mars í fyrra. Það met hefur nú verið slegið.

Hlutabréf Marel leiða hækkunarhrinu í Kauphöllinni en gengi bréfanna hefur nú hækkað um 3,86 í viðskiptum upp á rúma 5,2 milljarða króna. Össur fylgir á eftir með 3,57% gengishækkun og hlutabréf Icelandair Group með 2,34% hækkun. Þá hefur gengi hlutabréfa Haga hækkað um 0,85% það sem af er dags. Gengi bréfa Nýherja, sem ekki er hluti af Úrvalsvísitölunni, hefur hækkað um 1,82%.