Úrvalsvísitalan OMXI10 stendur nú í 3019,6 stigum og hefur aldrei verið hærri í lok dags. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um ríflega 18% frá áramótum og um 61% undanfarið ár.

Þó lækkaði stærsta félagið á markaðnum, Marel, mest allra í viðskiptum dagsins eða um 1,23%.

Gengi bréfa 14 félaga hækkuðu í dag en þrjú bréf lækkuðu. Auk Marel lækkaði Icelandair um 0,32% og standa bréf flugfélagsins í 1,57 krónum á hlut og þá lækkaði Sýn um 0,46%.

Alls nam veltan með hlutabréf í Kauphöllinni í dag 4,2 milljörðum króna í 363 viðskiptum.

Kvika hækkaði mest eða um 2,25% í 730 milljóna viðskiptum og hefur hækkað um nærri þriðjung það sem af er ári. Þá hækkaði Arion um nærri 2% í 969 milljóna króna viðskiptum og hafa bréf bankans hækkað um 38% árinu, mest allra félaganna í Kauphöllinni. Eimskip hækkaði um 1,6% í viðskiptum dagsins.