OMXI8, úrvalsvísitala Kauphallarinnar, lækkaði um 1,42% í dag og stendur nú í 1560 stigum, en hún hefur ekki verið lægri frá því um miðjan ágúst 2015. Aðeins eitt skráð félag hækkaði í dag, Arion Banki um tæpt 1%, en fyrir utan þau 3 sem engin hreyfing var á, lækkuðu öll hin. Dagurinn var því enn og aftur rauður.

Mest lækkuðu Hagar um rúm 2,5%, en þar á eftir kemur Síminn með 2,2% lækkun. Öll nema 2 þeirra félaga sem eftir eru lækkuðu um milli 1 og 2%.

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, sagði í samtali við Vísi í dag lækkanirnar einkum mega rekja til minnkandi umsvifa lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði og versnandi horfum í hagkerfinu með vaxandi verðbólgu samhliða háværum kröfum verkalýðsfélaga.