Úrvalsvísitalan lækkaði um 3,9% við lok markaðar og hefur ekki lækkað svo mikið á einum degi síðan í mars 2006 en þá lækkaði hún um 4,6%, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Eik banki [ FO-EIK ] hækkaði um 1,75% og var eina félagið sem var grænt.

Spron [ SPRON ] lækkaði um 10,6%, Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] lækkaði um 7,9%, FL Group [ FL ] lækkaði um 6,2%, Exista [ EXISTA ] lækkaði um 6,1% og Föroya banki [ FO-BANK ] lækkaði um 5,7%.

Verð hlutabréfa víðsvegar í heiminum hélt áfram að lækka í viðskiptum dagsins, segir greinignardeild Kaupþings, og var dagurinn raunar einn sá versti síðan hryðjuverkaárásirnar í New York áttu sér stað árið 2001.

"Eftir hrun á mörkuðum í Asíu í nótt opnuðu markaðir í Evrópu niður ásamt hinum íslenska. Strax eftir opnun lækkaði Úrvalsvísitalan um 2% og hélt svo áfram að lækka í rúmlega 4%. Hún hélst svo tiltölulega stöðug það sem eftir var dagsins," segir greiningardeild Landsbankans.

Einkum má rekja ástæðu lækkananna, segir greiningardeild Kaupþings, til væntinga um minni einkaneyslu í Bandaríkjunum en töluverður hluti útflutnings margra Asíuhagkerfa rennur til bandarískra neytenda.

"Afkoma framleiðslufyrirtækja á svæðinu væri því í hættu. Þá voru uppi vangaveltur þess efnis að asískir bankar myndu neyðast til að afskrá eignir vegna frétta um að Kínabanki (e. Bank of China) væri í þann mund að afmá 4,8 milljarða dollara vegna misheppnaðra fjárfestinga í undirmálslánum í Bandaríkjunum. Lausafjárkrísan, sem í sjálfu sér virðist vera á niðurleið, hefur þannig þróast yfir í væntingar um samdrátt, einkum í Bandaríkjunum, vegna hærri fjármögnunarkostnaðar og slakrar afkomu fjármálafyrirtækja. Þar sem bandaríska hagkerfið er svo stór hluti af heimshagkerfinu (ca. 20%) er ekki að undra að hlutabréfaverð sígi," segir hún.