Þriðji ársfjórðungur reyndist fjárfestum þungur í skauti. Burtséð frá gærdeginum var lækkun tímabilsins þó bærileg miðað við aðstæður.

Fyrir opnun markaða í gær var vísitalan ennþá yfir fjögur þúsund stigum þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld tilkynntu um umfangsmiklar björgunaraðgerðir til handa Glitni með því að leggja bankanum til 600 milljónir evra (84 milljarða) og fá 75% hlut sem gjald.

Þann dag voru viðskipti með bréf Glitnis stöðvuð og nam lækkun Úrvalsvísitölunnar á fjórðungnum 5%, samkvæmt upplýsingum frá Genius Mentis.

Það gefur til kynna að fjárfestar séu enn áhættufælnir.

En sé síðasti viðskiptadagur fjórðungsins tekinn með í reikninginn nemur lækkunin 21%. Enda lækkaði Úrvalsvísitalan um 17% í gær. Gengisþróun Glitnis vegur þar þungt.

Sé litið til stóru fjármálafyrirtækjanna lækkaði Straumur um 16% á fjórðungnum, Landsbankinn um 12%, Kaupþing um 9% og Exista um 8%. Því má þó ekki að gleyma að björgunaraðgerðir sem þessar eru ekki einsdæmi á erfiðum tímum í fjármálakrísunni.

Fyrir tveimur dögum lækkuðu erlendir markaðir nokkuð í kjölfar fregna af björgunaraðgerðum til handa fjármálafyrirtækjum í Belgíu, Bretlandi og Þýskalandi og vegna þess að fulltrúadeild bandaríska þingsins hafnaði björgunaraðgerðum ríkisstjórnar Bandaríkjanna sem kynntar voru um helgina.

Þegar litið er yfir þróun hlutabréfa í Evrópu á verðbréfavefnum Euroland síðastliðinn mánuð má sjá talsverðar lækkanir. Breska vísitalan FTSE100 hefur lækkað um 14% á tímabilinu, danska vísistalan OMXC hefur lækkað um 15% og norska vísitalan um 26%.

Vert er að hafa í huga að þessar vísitölur henta ekki vel til samanburðar við Úrvalsvísitöluna því í þeim er reynt að benda á þróunina á erlendum mörkuðum en hún byggist að mestu upp af fjármálafyrirtækjum.