Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar féll um 4,28% og gengi tveggja annarra stórfyrirtækja féll um meira en 2% í talsverðri gengislækkun í Kauphöllinni í dag. Þróunin hér var svipuð og á alþjóðlegum mörkuðum í allan dag. Takturinn að lækkunarferlinu var sleginn í Asíu í nótt þegar stjórnvöld í Kína birtu heldur lélegar hagtölur auk þess sem fjárfestar vestur í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að bandaríski seðlabankinn ætli að draga úr aðgerðum sínum hafa fram til þessa átt að örva efnahagslíf landsins.

Auk gengisfalls hlutabréfa Össurar þá féll gengi hlutabréfa Marel féll um 2,5% og Icelandair Group um 2,31%. Þá lækkaði gengi bréfa Eimskips um 1,35% og VÍS um 1,28%. Gengi bréfa TM lækkaði um 0,94%, Haga um 0,69% og Vodafone um 0,46%.

Úrvalsvísitalan féll um 2,36% og endaði vísitalan í 1.135,66 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan í janúar á þessu ári.

Ekki var mikil velta með hlutabréf í dag eða upp á tæpar 515 milljónir króna. Til samanburðar nam veltan tæpum 1,2 milljörðum króna í gær.