Hlutabréf Marel leiddu grænan dag í Kauphöllinni í dag með 2,54% hækkun í 317 milljón króna viðskiptum, en 15 af 19 skráðum félögum hækkuðu í samtals 4 milljarða króna viðskiptum og voru þau 235 talsins. Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,9% og stendur nú í 2.194 stigum eftir 4,2% hækkun í vikunni.

Bréf Origo fylgdu fast á hæla Marels með 2,43% hækkun, en veltan nam þó aðeins 20 milljónum króna í alls 9 viðskiptum. Þriðja sætið vermdi Reginn með 2,25% hækkun í 173 milljóna viðskiptum, en önnur félög náðu ekki 2% hækkun.

Aðeins þrjú félög lækkuðu, og það öll hóflega. TM og Icelandair lækkuðu bæði um 1,03%, hið fyrrnefnda í 216 milljóna veltu, en bréf flugfélagsins skiptu um hendur fyrir alls 51 milljón króna. Hagar lækkuðu um 0,38% í 295 milljón króna viðskiptum, og engin viðskipti voru með bréf Brims í dag.

Langtum mest velta var með bréf Kviku, sem hreyfðust sáralítið, um 0,09%, í 1.272 milljón króna viðskiptum, en Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson seldu samtals 3,1% hlut fyrir 774 milljónir króna í morgun. Á eftir Kviku komu Sjóvá með 424 milljóna veltu og VÍS með 371 milljón.