Grænt var yfir Kauphöll Íslands í viðskiptum dagsins er hlutabréf nær allra félaga sem skráð eru á aðalmarkað hækkuðu í verði. Hlutabréf Regins hækkuðu mest, um 4,5% og standa í 21 krónu hvert. Næst mest hækkuðu bréf Icelandair eða um 3,6% sem standa í 1,59 krónum.

Heildarvelta nam 2,3 milljörðum króna í 265 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 1,8% og stendur í 2.455 stigum og er í hæstu hæðum. Alls hækkuðu bréf sextán félaga, þar af bréf þrettán félaga um meira en eitt prósent.

Bréf TM hækkuðu um 2,9% og bréf Marel hækkuðu um 2,16% en mest velta var með síðarnefnda félagið fyrir tæplega 500 milljónir króna.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 6,9 milljörðum króna í 69 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa tíu skuldabréfaflokka hækkaði en krafa ellefu flokka lækkaði. Mest lækkaði krafa óverðtryggðra skuldabréfa hjá Íslandsbanka sem eru á gjalddaga árið 2027 eða um tólf punkta. Viðskiptin voru þrjú og velta nam 60 milljónum. Krafan stendur í 2,7%.