Viðskipti með hlutabréf í nóvembermánuði námu 35.459 milljónum eða 1.773 milljónum á dag. Það er 26% hækkun frá fyrri mánuði, en í október námu viðskipti með hlutabréf 1.402 milljónum á dag. Þetta er 87% hækkun á milli ára. Þetta kemur fram í mánaðarlegu viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland.

Í mánuðinum voru mest viðskipti með hlutabréf í Marel en þau námu 8.472 milljónum króna. Næst á eftir kom Icelandair með 7.661 milljón, Össur með 3.732 milljónir, Eimskip með 2.892 milljónir og Tryggingamiðstöðin með 2.282 milljónir.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 6,96% milli mánaða og stendur nú í 1.269 stigum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Straumur fjárfestingabanki með mestu hlutdeildina, 33,1% (10,7% á árinu), Arion banki með 20,7% (26,4% á árinu), og Íslandsbanki með 18,3% (21,5% á árinu). Í lok nóvember voru hlutabréf 17 félaga skráð á Aðalmarkaði og First North Iceland og nemur heildarmarkaðsvirði þeirra 672 milljörðum króna, samanborið við 547 milljarða í nóvember 2013.

Viðskipti með skuldabréf námu 147 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 7,3 milljarða veltu á dag. Þetta er 42% hækkun frá fyrri mánuði (viðskipti í október námu 5,2 milljörðum á dag), en 9% lækkun frá fyrra ári (viðskipti í nóvember 2013 námu 8,1 milljarði á dag).

Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 21,9% (20,0% á árinu), Landsbankinn með 20,8% (20,8% á árinu) og MP banki með 15,7% (18,8% á árinu).