Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,38% í viðskiptum dagsins í dag og endaði í 1.585,82 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 20,97%. Velta á hlutabréfamarkaði var minni en oft áður og nam 353,7 milljónum króna. Gengi bréfa Fjarskipta hækkaði um 1,33% í 69,4 milljóna króna viðskiptum, gengi TM hækkaði um 0,97% í 15,6 milljóna króna viðskiptum, gengi Icelandair hækkaði um 0,72% í 38,4 milljóna króna viðskiptum og gengi bréfa VÍS um 0,72% í ríflega fimm milljóna króna viðskiptum.

Mest var lækkunin á gengi bréfa Össurar, eða 3,09% í 28,5 milljóna króna viðskiptum. Þá lækkaði gengi Eikar um 1,23% í viðskiptum sem námu aðeins 723.000 krónum.

Velta á skuldabréfamarkaði nam í dag 4,8 milljörðum króna og var veltan mest með skuldabréf í ríkisskuldabréfaflokknum RIKB 25 eða fyrir 1.385 milljónir króna.