Gengi hlutabréfa Marel hækkaði um 2,49% í tæplega 110 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta hækkunin á hlutabréfamarkaði í dag. Á eftir fylgdi gengi bréfa Eimskips, sem fór upp um 1,52%. Þá hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 0,73%, Haga-samstæðunnar um 0,66% og Vodafone um 0,46%.

Þróunin hífði Úrvalsvísitöluna upp um 1,21% á þessum fyrsta degi nýs árs í Kauphöllinni og endaði vísitalan í 1.072 stigum. Hún hefur ekki verið hærri síðan í maí á síðasta ári þegar hún lá við 1.100 stiga múrinn.

Nokkur hækkun hefur verið á erlendum hlutabréfamörkuðum í dag. Fjármálasérfræðingar segja hækkunina skýrast af því að þingmenn í fulltrúadeild bandaríska þingsins náðu saman um aðgerðir til að koma í veg fyrir að landið steypist ofan í fjárlagaþverhnípið svokallaða.