*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 16. september 2021 16:02

Úrvalsvísitalan hækkar um 1,6%

Fjórtán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar hækkuðu um meira en 1% í dag.

Ritstjórn

Eftir töluverðar lækkanir á hlutabréfamarkaðnum síðastliðna viku þá hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,6% í 7,3% milljarða króna veltu í dag. Átján af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru græn í viðskiptum dagsins, þar af voru fjórtán sem hækkuðu um meira en 1% í dag.  

Hagar leiddu hækkanir en gengi félagsins fór upp fór upp um 4% í nærri hálfs milljarðs veltu. Hitt smásölufélagið, Festi, hækkaði einnig um 2%. Gengi Kviku banka, sem hafði fallið um 8% á einni viku, rétti úr kútnum og hækkaði um 3,5% í dag.

Mesta veltan var enn einu sinni með hlutabréf Arion banka, eða um 1,7 milljarðar króna. Gengi Arion stendur nú í 170 krónum á hlut eftir 0,3 hækkun í dag. Um milljarðs velta var með hlutabréf Íslandsbanka sem stóðu óbreytt í genginu 121,2 krónum á hlut.  

Að frátöldum Skeljungi, sem lækkaði örlítið í einum viðskiptum að fjárhæð 280 þúsund krónum, þá var Play eina rauða félagið á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Gengi flugfélagsins lækkaði um 2,4% í 230 milljóna veltu og stendur nú í 20,5 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Play hefur nú lækkað um 17,7% frá því að hafa náð sínu hæsta gengi á öðrum viðskiptadegi frá skráningu félagsins í fyrri hluta júlímánaðar. Hlutabréfaverðið nálgast nú gengið í hlutafjárútboði Play í lok júní.