Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,33% í dag og stendur því í 1.661,09 stigum en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 2,1 milljarði króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,03% og stendur því í 1.364,94 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 2,2 milljörðum króna.

Olíufélögin áttu góðu gengi að fagna í dag en mesta hækkunin átti sér stað á bréfum N1 en hún nam 1,72%. Standa bréf N1 því í 118 krónum en viðskipti voru þó tiltölulega lítil með bréf félagsins eða um 39 milljónir króna. Næst mest hækkaði Skeljungur eða um 1,44% í 66 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins stóðu í 6,67 krónum við lokun markaða.

Bréf Nýherja lækkuðu mest eða um 1,33% en í litlum viðskiptum en þau námu aðeins 28 milljónum króna. Þá lækkuðu bréf Símans um 0,49% í 50 milljón króna viðskiptum.

Mest voru viðskipti með bréf Marel eða tæplega 823 milljónir króna en bréf félagsins hækkuðu um 0,60% í dag og stóðu því í 334 krónum við lokun markaða.