Talsverð hækkun varð á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni í dag og voru nokkur met slegin. Þar á meðal hækkaði gengi Haga um 0,55% og endaði það í 18,15 krónum á hlut. Bréfin hafa aldrei áður farið á þvílíku verði. Þá hækkaði gengi Icelandair Group um 1,16% og endaði það í 6,10 krónum á hlut. Verði hefur ekki verið hærra í þrjú ár.

Gengi bréfa Marel hækkaði um 1,02% og endaði það í himinhæðum, 148,5 krónum á hlut.

Þá hækkaði gengi bréfa færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum um 2,34% og Össurar um 0,49%.

Gengi bréfa BankNordik féll hins vegar um 3,13% í dag en stjórnendur bankans greindu frá því fyrr í dag að þeir hafi sótt lánsfé til danska seðlabankans.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,62% og endaði hún í 1.040,7 stigum. Hún hefur hækkað um rúm 14% frá áramótum. Vísitalan, sem tók gildi á Nýársdag fyrir tveimur árum, hefur aldrei verið hærri en nú.