*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 9. febrúar 2006 17:46

Úrvalsvísitalan hefur fimmfaldast á þremur árum

Ritstjórn

Þær hækkanir sem hafa átt sér stað á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa, að því er segir í Vegvísi Landsbankans, hlotið verðskuldaða athygli að undanförnu, enda hefur Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkað meira en 50% árlega síðastliðin þrjú ár.

Í Vegvísi er bent á að frá ársbyrjun 2003 til ársloka 2005 fór vísitalan úr 1.352 stigum í 5.534 stig. Ekki hefur dregið úr hraðanum það sem af er þessu ári, en við lokun markaða í dag stóð vísitalan í 6.615 stigum sem svarar til 19,5% hækkunar frá áramótum. Þetta er nærri því að vera fimmföld hækkun á gengi fyrirtækja í Úrvalsvísitölunni frá ársbyrjun 2003.

Á þessum tíma hefur hagnaður Úrvalsvísitölufélaganna hækkað mikið. Þetta sést best á því að V/H hlutfall (markaðsvirði/hagnaði) vísitölunnar, miðað við spá greiningardeildar Landsbankans um hagnað árið 2006, er 15,9 samanborið við 15 í árslok 2003.

Ef þróun vísitölunnar er skoðuð nánar sést að verðhækkanir á árinu 2005 voru stöðugar samanborið við árin tvö á undan.