Nokkur af stærstu félögunum í Kauphöll Íslands hafa birt uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung en Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um 2,4% frá birtingu fyrstu 9 mánaða uppgjöranna, segir greiningardeild Glitnis.

?Hagnaður bankanna var almennt undir væntingum Greiningar en við spáum ekki fyrir um afkomu Glitnis. Afkoma Bakkavarar var í takti við spá okkar en hagnaður Össurar var yfir væntingum okkar. Góð afkoma Össurar skýrist þó af stórri jákvæðri skattfærslu en reksturinn var undir væntingum. Hagnaður Bakkavarar, Össurar og Glitnis var yfir meðalspá greiningaraðila, hagnaður Kaupþings var í takti en hagnaður Landsbanka og Straums-Burðaráss var undir meðalspá," segir greiningardeildin.

Hreinar rekstrartekjur bankanna voru gróflega í takti við væntingar

?Hreinar rekstrartekjur bankanna voru gróflega í takti við væntingar en almennt voru hreinar vaxtatekjur undir væntingum en hreinar þóknanatekjur yfir væntingum. Kostnaður bankanna var almennt aðeins yfir væntingum. Horfur í rekstri bankanna eru með ágætum á lokafjórðungi ársins enda eru bankarnir með gríðarlega hátt eiginfjárhlutfall og hafa fjármagn til innri vaxtar. Hlutabréfamarkaðir hafa hækkað og fjórði fjórðungur er almennt góður í þóknanatengdri starfsemi. Því stefnir í að arðsemi bankanna verði með ágætum á árinu þrátt fyrir umrót í umhverfi þeirra," segir greiningardeildin.