Viðskipti í Kauphöll Íslands í dag námu 6,8 milljörðum, mest viðskipti voru með Íbúðabréf, 4,3 milljarðar en næst mest með hlutabréf, 2,2 milljarðar. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,22% og nemur tólf mánaða hækkun vísitölunnar nú 96%. Viðskipti voru með hlutabréf þrettán félaga í Úrvalsvísitölunni en engin viðskipti voru með hlutabréf Atorku og HB Granda. Velta með hlutabréf í Úrvalsvísitölunni nam 2.140 m.kr., lang mest með hlutabréf Össurar, 1.279 m.kr. eða rétt tæp 5% af markaðsvirði félagsins. Það kæmi því ekki á óvart að fljótlega birtist flöggun í félaginu.

Hlutabréf Össurar hækkuðu um 1,8% í dag og var lokagengi þeirra 85 sem er hæsta verð þeirra frá upphafi. Næst mest viðskipti voru með hlutabréf Actavis og hækkuðu þau um 0,4% og er lokagengi þeirra 48,2 en hæst fór gengi bréfa félagsins í lok febrúar í 49,9. Mest lækkuðu hlutabréf Opinna kerfa, eða um 2,3% í 5,6 milljón króna viðskiptum, sú spenna sem fylgdi valdabaráttu í félaginu fyrr í vikunni virðist því vera að hverfa. Af öðrum hlutabréfum var það helst að frétta að gengi Flugleiða lækkaði um 2,9% í 870 þús. króna viðskiptum. Viðskipti með hlutabréf Flugleiða eru þó orðin ákaflega stöpul og verðmyndun döpur en í lok dagsins var munur á hagstæðasta kaup- og sölutilboði 4,7%.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.