Á morgun hefjast viðskipti í Kauphöllinni á ný eftir jólahátíðina og standa í tvo daga, fimmtudag og föstudag. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur aðeins lækkað einu sinni á milli jóla og nýárs og það var fyrsta ár viðskipta í Kauphöllinni, þá Verðbréfaþingi Íslands, árið 1993. Bæði meðaltal og miðgildi hækkana þessa daga hefur verið um 1%, en mest hefur hækkunin verið 2,9% og það var árið 1994.

Frá árinu 2000 er minnsta hækkun þessa viðskiptadaga, sem hafa verið frá tveimur upp í fimm, aðeins 0,03%. Mesta hækkunin er hins vegar 2,5% og meðaltal og miðgildi eru bæði 1,1%.

Lokagengi ársins hefur mikla þýðingu

Þessi sögulega staðreynd veitir vitaskuld enga vissu fyrir því hvað gerist í viðskiptum í Kauphöllinni á morgun og hinn, en það er í öllu falli ljóst að lækkun þessa daga væri mjög óvænt þegar horft er til sögunnar.

Gengi hlutabréfa í árslok skiptir ýmis skráð félög miklu, enda eiga mörg þeirra stórar stöður í öðrum skráðum félögum. Þannig á FL Group [ FL ] til að mynda stóra stöðu í Glitni [ GLB ], Spron [ SPRON ] á stóra stöðu í Exista [ EXISTA ], Exista í Kaupþingi [ KAUP ] og Bakkavör [ BAKK ] og Landsbankinn [ LAIS ] og Atorka [ ATOR ] í Marel Food Systems [ MARL ]. Síðustu viðskiptadögum ársins fylgir þess vegna jafnan meiri spenna en öðrum dögum.