Ein vika er eftir af öðrum ársfjórðungi og því einungis nokkrar vikur í að uppgjör félaga í Kauphöll Íslands fari að birtast, segir greiningardeild Glitnis.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um tæpt prósent frá áramótum en á öðrum ársfjórðungi er ávöxtun hennar neikvæð því úrvalsvísitalan hækkaði um 6,5% á fyrsta ársfjórðungi, að sögn greiningardeildarinnar.

?Sé litið á einstök félög þá hafa bréf Actavis hækkað mest frá áramótum eða um 26% og bréf Straums-Burðaráss hafa hækkað um 23%. Fjárfestar vænta að senn komi fréttir af þessum félögum sem kunni að hafa miklar breytingar á rekstri þeirra í för með sér," segir greiningardeildin.

Actavis og bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals berjast um að kaupa króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva. Beri Actavis sigur úr bítum og kaupi Pliva verður það þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi.

?Hræringar standa yfir meðal stærstu hluthafa Straums-Burðaráss þar sem að deilt er um stefnu og stjórnun bankans," segir greiningardeildin.