Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 17,8% frá 1. desember síðastliðnum, samkvæmt útreikningum greiningardeildar Glitnis, en það sem af er ári nemur hækkunin 14%.

Á undanförnum mánuðum hefur ávöxtun á íslenskum hlutabréfamarkaði verið gríðarlega góð. Í byrjun ársins gaf Greining út afkomuspá þar sem við gerðum ráð fyrir að hækkun Úrvalsvísitölunnar yrði 21% á árinu," segir greiningardeildin.

"Það sem af er ári nemur hækkunin um 14% og má rekja það að hluta til þess að bankarnir og fjárfestingarfélögin skiluðu mun betri uppgjörum en gert var ráð fyrir og hafa þau því dregið vagninn á markaðnum."

Glitnir segir þróun Úrvalsvísitölunnar verði að teljast framúrskarandi ef þróun fyrir fjárfesta ef horft er til tímabilsins frá 1. desember síðastliðnum.

"Á árinu er gert ráð fyrir að landslagið muni breytast á norrænum banka- og fjárfestingarmörkuðum með sameiningum. Íslendingar hyggjast taka þátt í þróuninni, en takist það, má gera ráð fyrir áframhaldandi líflegum hlutabréfamarkaði í ár," segir greiningardeildin.