Undanfarna daga hefur úrvalsvísitalan hækkað allmikið og rauf hún 8.400 stiga múrinn í fyrradag. Greiningaraðilar höfðu spáð því að vísitalan næði 8.400-8.500 stigum á þessu ári, en fyrst því takmarki er náð í upphafi þriðja ársfjórðungs velta margir fyrir sér hvort fótur sé fyrir þessum miklu hækkunum, og hverjar líkurnar séu á auknum hækkunum.

Þess má geta að 8.000 stiga múrinn var rofinn þann 15. maí síðastliðinn. Að sögn Jónasar Gauta Friðþjófssonar, sérfræðings á Greiningu Glitnis, eru hækkanirnar eðlilegar: "Við höfum verið að endurskoða ýmislegt og gera afkomuspár, og sjáum fyrir okkur að áframhald verði á núverandi þróun. Það er full innistæða fyrir þessum hækkunum." Jónas Gauti segir horfur hafa verið góðar, og að mikil stemmning ríki á markaðnum: "Við erum ekki að sjá úrvalsvísitöluna ná hámarki í dag, ég tel að hún eigi enn töluvert inni," segir hann.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.