Vísitala 15 stærstu fyrirtækjanna í Kauphöll Íslands (ICEX-15) hækkaði um 12% á þriðja ársfjórðungi og er það yfir væntingum greiningardeildar Íslandsbanka.

?Það verður að teljast mjög góð hækkun á svo stuttum tíma og kemur til viðbótar við þær miklu hækkanir sem orðið hafa á íslenskum hlutabréfum undanfarið. Þannig hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 37,8% frá áramótum en nokkru minna eða 22% á síðustu tólf mánuðum," segir greiningardeildin.

Gengi bréfa Landsbanka Íslands skaust upp um 30,6% á þriðja ársfjórðungi og hækkuðu verulega umfram vísitöluna. Önnur félög sem hækkuðu umfram vístöluna á tímabilinu voru Burðarás, sem hækkaði um 18,4%, og Marel (13,7%).

?Ein helsta ástæða hækkunarinnar á fjórðungnum var góð afkoma hjá félögunum sem vega þungt í Úrvalsvísitölunni á öðrum ársfjórðungi. Afkoma bankanna þriggja var t.a.m. yfir væntingum. Tíu af fimmtán félögum í ICEX-15 hækkuðu en fimm lækkuðu. Mest lækkuðu bréf Flögu, um 18,2%. Hækkun Úrvalsvísitölunnar á fjórðungnum er meiri en við reiknuðum með og umfram það sem búast má við til lengri tíma litið," segir greiningardeildin.