Úrvalsvísitalan rauf 3.300 stiga múrinn í gær en hún hækkaði um 2,3% yfir daginn. Þau fyrirtæki sem hækkuðu mest voru KB banki (5,3%), Íslandsbanki (2,6%) og Bakkavör (2,4%). Í dag hækkaði svo Úrvalsvísitalan um 2,7% og endaði í 3.406 stigum. Vísitalan hefur þar af leiðandi á tveimur dögum farið úr 3.241 stigum í yfir 3.400 stig. Það voru bankarnir sem leiddu hækkanirnar í dag, KB banki hækkaði um 4,6%, Landsbankinn um 4% og Íslandsbanki um 2%. Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans segir að greinilegt sé að markaðurinn taki vel í útspil bankanna að bjóða fasteignalán á betri kjörum heldur en Íbúðalánasjóður þar sem bankarnir hafa hækkað mikið síðastliðna tvo daga.

Ekkert virðist ætla að draga úr hækkunum á Úrvalsvísitölunni ef horft er á þróun hennar undanfarnar vikur og mánuði. Í ágústmánuði nemur hækkun vísitölunnar 9,5% og á þriðja ársfjórðungi hefur hún hækkað um 15,3%. Það sem af er ári hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 61% en til samanburðar nam hækkun síðasta árs 56%.