*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 9. september 2020 17:34

Úrvalsvísitalan í sögulegu hámarki

Hlutabréfavísitalan fór í fyrsta sinn uppfyrir 2.200 stigin, og fram úr síðasta meti frá í janúar. Icelandair hækkaði mest.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,68%, upp í 2.204,91 stig í 1,1 milljarða króna viðskiptum dagsins. Hefur vísitalan aldrei verið hærri, og fór hún þar með fram úr síðasta hápunkti sem var 2.199,79 stig 17. janúar síðastliðinn.

Icelandair hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 7,83%, upp í 1,24 krónur, í þó ekki nema 3 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hélt félagið hluthafafund sinn í dag þar sem tillögur um fyrirhugað 23 milljarða króna hlutafjárútboð voru samþykktar.

Viðskiptablaðið sagði fyrst frá útboðslýsingu útboðsins sem félagið birti í gær, en það mun kosta félagið alls 290 milljónir króna. Þar kom meðal annars fram að útboðinu verður frestað um 2 daga, til 16. til 17. september, en þar er stefnt að söfnun 20 milljarða nýrra hluta á genginu 1, en hægt verður að bæta við allt að þremur milljörðum.

Marel hækkar áfram í mestu viðskiptunum

Næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Eikar, eða um 4,06%, og fóru gengi bréfa félagsins í 6,92 krónur, í 75 milljóna króna viðskiptum. Þriðju mesta hækkunin var á gengi bréfa Sýnar, en þau hækkuðu um 3,43%, upp í 28,65 krónur, í 132,8 milljóna króna viðskiptum, en það voru jafnframt næst mestu viðskiptin með bréf í félagi í dag.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Marel, fyrir 235,6 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,27% í viðskiptunum og fór í 743,0 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru með bréf VÍs, eða um 132,8 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 2,11%, upp í 10,65 krónur.

Einungis eitt félag lækkaði í virði í dag, það var Festi sem lækkaði um 0,34%, niður í 145,5 krónur í 27 milljóna króna viðskiptum.

Aðrar myntir hækkuðu meira en Bandaríkjadalur

Allar helstu viðskiptamyntirnar hækkuðu í virði gagnvart íslensku krónunni í dag, nema breska pundið, sem lækkaði um 0,07%, niður í 182,09 krónur og japanska jenið sem lækkaði um 0,11%, niður í 1,3170 krónur í kaupgengi.

Hækkun norsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku var sú mesta, eða um 0,87%, upp í 15,511 íslenskar krónur, næst mest var hækkun sænsku krónunnar, eða 0,69%, upp í 15,968 íslenskar, og svo svissneska frankans sem hækkaði um 0,59%, upp í 153,26 króna kaupgengi.

Hækkun dönsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku var svo 0,33%, upp í 22,211 krónur, hækkun evrunnar nam 0,30%, upp í 165,25 krónur og hækkun Bandaríkjadals nam 0,22%, upp í 139,98 krónur.

Stikkorð: Marel Úrvalsvísitalan Icelandair Nasdaq VÍS kauphöll Sýn