Frá því að Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi var endurreist eftir hrun hefur hún aldrei verið hærri en akkúrat nú, en eftir miklar hækkanir á Marel í morgun er hún komin yfir 2.000 stigin.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi var hagnaður Marel 14% hærri á fyrsta ársfjórðungi ársins en á sama tíma í fyrra. Hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 4,44% það sem af er viðskiptum í morgun, en þau hafa numið 872 milljónum króna, og er það komið í 565,00 krónur þegar þetta er skrifað.

Kemur þessi hækkun til viðbótar við um fimmtungshækkun vísitölunnar frá áramótum sem Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku . Vægi Marel er um helmingur af Úrvalsvísitölunni í dag, sem skýrir þessi miklu áhrif.

Um áramótin fékk Marel viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar og var Árni Oddur Þórðarson forstjóri fyrirtækisins í ítarlegu viðtali í Áramótatímaritinu að því tilefni.