Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 5,14%, og gengið farið í 9,82 krónur, það sem af er viðskiptum í morgun, en þau hafa numið um 200 milljónum króna þegar þetta er skrifað. Heildarviðskiptin hafa hins vegar verið fyrir um 2,6 milljarða króna, og hefur Úrvalsvísitalan hækkað í morgun um 0,77%, og farið upp í 2.108,66 stig.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær endaði hún þá í hærra gildi en hún hafði farið hæst fyrir helgi, og hefur gengi hennar ekki verið hærra frá því að hún var endurreist eftir hrun, með yfir fimmtungshækkun frá áramótum .

Reitir hafa hækkað næstmest í viðskiptum morgunsins, eða um 4,0%, upp í 23,40 krónur, í 209 milljóna króna viðskiptum. Annað fasteignafélag, Eik hefur hækkað þriðja mest, eða um 3,01% í 98 milljóna króna viðskiptum, og standa bréf félagsins nú í 9,25 krónum.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,50%, í þó ekki nema 49 milljóna króna viðskiptum, en mest viðskipti voru með bréf bankans í gær. Í dag eru mestu viðskiptin hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 597 milljónir króna, en þau hafa lækkað um 0,17% í þeim, niður í 582,00 krónur.