*

fimmtudagur, 17. október 2019
Innlent 8. maí 2019 13:03

Úrvalsvísitalan komin yfir 2.100 stigin

Icelandair hefur hækkað yfir 5% í kauphöllinni í morgun og Reginn 4%, meðan Marel lækkar í virði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 5,14%, og gengið farið í 9,82 krónur, það sem af er viðskiptum í morgun, en þau hafa numið um 200 milljónum króna þegar þetta er skrifað. Heildarviðskiptin hafa hins vegar verið fyrir um 2,6 milljarða króna, og hefur Úrvalsvísitalan hækkað í morgun um 0,77%, og farið upp í 2.108,66 stig.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær endaði hún þá í hærra gildi en hún hafði farið hæst fyrir helgi, og hefur gengi hennar ekki verið hærra frá því að hún var endurreist eftir hrun, með yfir fimmtungshækkun frá áramótum.

Reitir hafa hækkað næstmest í viðskiptum morgunsins, eða um 4,0%, upp í 23,40 krónur, í 209 milljóna króna viðskiptum. Annað fasteignafélag, Eik hefur hækkað þriðja mest, eða um 3,01% í 98 milljóna króna viðskiptum, og standa bréf félagsins nú í 9,25 krónum.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,50%, í þó ekki nema 49 milljóna króna viðskiptum, en mest viðskipti voru með bréf bankans í gær. Í dag eru mestu viðskiptin hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 597 milljónir króna, en þau hafa lækkað um 0,17% í þeim, niður í 582,00 krónur.

Stikkorð: Úrvalsvísitalan Icelandair Nasdaq Reitir Eik Kauphöllin