Úrvalsvísitalan OMXI10 náði nýjum hæðum í 3.153 stigum eftir 1,5% hækkun í dag. Vísitalan hefur nú hækkað um 23,4% frá ársbyrjun en ef litið er aftur til mars á síðasta ári hefur gengi hennar nærri tvöfaldast.

Icelandair leiddi hækkanir í dag en flugfélagið hækkaði um 4,4% í rúmlega 600 milljóna króna veltu. Gengi Icelandair hefur hækkað töluvert frá því að tilkynnt var um samkomulag við bandaríska fjárfestingasjóðinn Bain Capital um kaup á 16,6% hlut  í félaginu fyrir 8,1 milljarð króna. Hlutabréfaverð Icelandair stendur nú í 1,67 krónum á hlut, sem er 16,8% yfir genginu í fyrirhuguðum kaupum Bain Capital. Flugfélagið stefnir að því að halda hluthafafund 23. júlí næstkomandi vegna aðkomu Bain.

Allir þrír bankarnir í Kauphöllinni, Íslandsbanki, Arion og Kvika, náðu sínum hæstu hæðum frá skráningu eftir hækkanir dagsins. Gengi Íslandsbanka fór um tíma í 109 krónur á hlut en endaði daginn í 103,5 krónum. Arion hækkaði um 2,3% og Kvika um 2,6%.

Mesta lækkunin var hjá Origo sem lækkaði um 2,7% í dag. Það skýrist einkum af sölu Hvals hf. og tengdra félaga á öllu hlutafé sínu í Origo fyrir um 2,9 milljarða króna í dag. Fyrir áttu þessir aðilar 13,8% hlut í félaginu. Kaupgengið í viðskiptunum nam 48 krónum á hlut en gengi Origo endaði daginn í 50,5 krónum.