Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,37% það sem af er degi og stendur hún nú í 1.037 stigum. Vísitalan, sem tók gildi í byrjun árs 2009, hefur aldrei náð hæðum sem þessum. Það er 17% hækkun á gengi hlutabréfa færeyska bankans BankNordik sem hefur lyft Úrvalsvísitölunni. Bankinn birti ársuppgjör sitt í morgun.

Þessu til viðbótar hefur gengi Marel hækkað um 0,68% og Össurar um 0,49%.

Úrvalsvísitalan hefur snert methæðir nokkrum sinnum síðustu vikuna. Aldrei hefur hún hins vegar náð viðlíka hæðum og nú.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í adg að þróun íslenska hlutabréfamarkaðarins með öðru sniði en víða í Evrópu. Þar hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað og er það annar dagurinn í röðu sem það gerist.

Greiningin bendir á að þrátt fyrir það hafi markaðir hvort heldur er í Bandaríkjunum, Evrópu og í Asíu skilað mjög góðri ávöxtun það sem af er ári. Nikkei-vísitalan í Japan hefur hækkað um 20% frá áramótum. Sömu sögu er að segja af DAX-vísitölunni í Þýskalandi. Nasdaq-vísitalan í Bandaríkjunum hefur hækkað um 17,3% og um 16% á markaði í Kaupmannahöfn.

Hækkunin hér er á svipuðum slóðum og í kauphöllinni í Osló í Noregi en þar hefur aðalvísitalan hækkað um 13% frá áramótum.