Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði lítillega, eða um 0,06%, í viðskiptum dagsins sem námu 2,3 milljörðum í 183 viðskiptum.

Mest hækkun var á gengi Icelandair. Eins og svo oft voru viðskiptin sáralítil, eða um 6 milljónir króna. Bréf félagsins hækkuðu um 3,18% og standa nú í 2,27 krónum hvert. Þau hafa því hækkað um rúmlega 48% síðan 12. maí, þegar voru sem lægst en þá stóðu bréfin í 1,53 krónum hvert.

Næst mest hækkun var á bréfum Icelandic Seafood, eða um 2,16%, í viðskiptum upp á 85 milljónir og standa bréfin nú í 8,5 krónum hvert. Þriðja mest hækkun var svo á bréfum Kviku banka eða um 0,85% í viðskiptum upp á 309 milljónir. Félagið gaf frá sér tilkynningu í dag um að dótturfélag þess hafi tekið við tveimur breskum veðlánasjóðum. Bréf félagsins standa í 9,48 krónum hvert.

Mest lækkun var á bréfum VÍS eða um 1,32% í viðskiptum upp á 42 milljónir. Bréf félagsins standa nú í 10,45 krónum hvert. Mest velta var með bréf Arion banka, fyrir rúmar 670 milljónir króna, en þau stóðu í stað í lok dags. Bréf félagsins hafa hækkað um 12,41% síðasta mánuð.

Gengi krónunnar lækkaði gagnvart sínum helstu viðskiptamyntum. Mest lækkun var við japanska jenið eða um 1,12%. Evran styrktist samanborið við íslensku krónuna um 0,27% og fæst hún nú á 150 krónur. Bandaríkjadalur fæst á rúmar 132 krónur og styrktist hann um 0,09%. Breska pundið fæst á rúmar 168 krónur og styrkist það um 0,2% í dag.