Úrvalsvísitalan lækkaði í dag um 1,68% og lækkaði heildarvísitala hlutabréfamarkaðarins um 2,26% í 2.101 milljón króna viðskiptum. Lækkaði gengi bréfa allra skráðra félaga í Kauphöllinni í viðskiptum dagsins.

Mest lækkuðu bréf Icelandair Group, eða um 2,84% í 165,9 milljón króna viðskiptum (ef litið er framhjá gengi bréfa í Össuri, sem lækkuðu um 4,79% í rúmlega milljón króna viðskiptum). Þar næst lækkaði gengi bréfa í Högum mest, eða um 2,56% í 88,1 milljón króna viðskiptum, og svo gengi bréfa í Eik fasteignafélagi, eða 2,28% í 14,2 milljón króna viðskiptum. Mest velta var með bréf Marel, eða tæplega 284 milljónir, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 1,29%.

Á skuldabréfamarkaði stóð Aðalvísitalan í stað, óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,18% en verðtryggð bréf hækkuðu um 0,07%. Velta á skuldabréfamarkaði nam 5.251 milljónum króna.