Árið 2017 lækkaði úrvalsvísitalan um 4,4%. Sé leiðrétt fyrir arðgreiðslum lækkaði vísitalan um 5,1%. Um er að ræða annað árið í röð sem úrvalsvísitalan lækkar, en árið 2016 lækkaði arðgreiðsluleiðrétt vísitala um 7,8%.

Úrvalsvísitalan (OMXI8) er samsett af þeim átta félögum sem hafa mestan seljanleika í viðskiptum í Kauphöllinni. Vægi félaga í vísitölunni ræðst af flotleiðréttu markaðsvirði. Það þýðir að einungis það hlutafé sem ætla má að myndi grunn að virkum viðskiptum í Kauphöllinni er hluti af vísitölunni. Eik tók sæti HB Granda í Úrvalsvísitölunni á árinu. Í dag tók Reginn sæti Eimskips í vísitölunni.

Þó freistandi sé að tala um ógjöfult ár á markaði má benda á að arðgreiðsluleiðrétt vísitala aðallistans (OMXI All-Share GI) hækkaði um 4,9% árið 2017. Árið 2016 lækkaði hún um 5,3%.

Af þeim sextán félögum sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar voru hlutabréf átta félaga með jákvæða ávöxtun. Mest hækkaði gengi bréfa sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda á árinu, eða um 34,6%. Séu félögin flokkuð eftir geirum voru það tæknifyrirtækin (Fjarskipti, Marel, Síminn og Nýherji) sem leiddu hækkunina. Einnig hækkuðu hlutabréf tryggingafélaganna (VÍS, Sjóvá, TM) ríflega í verði. Á hinn bóginn lækkuðu fasteignafélögin (Eik, Reginn og Reitir), verslunar- og olíufélögin (Hagar, N1 og Skeljungur) og flutningafélögin (Eimskip og Icelandair Group) í verði. Mest var lækkunin á gengi bréfa Icelandair Group, eða 36,3%. Stoðtækjaframleiðandinn Össur kvaddi Kauphöllina á árinu.

Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Iceland Seafood International mest, eða um 31%. Gengi Hampiðjunnar hækkaði um 14,7%. Verð á bréfum Sláturfélags Suðurlands og Klappa Grænna Lausna stóð í stað.

632 milljarða króna heildarvelta

Heildarvelta á hlutabréfamarkaði árið 2017 nam 632 milljörðum króna, eða rúmlega 2,5 milljörðum króna á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf 559 milljarðar árið 2016, eða 2,2 milljarðar á dag. Jókst veltan á hlutabréfamarkaði því um 13% árið 2017.

Veltan á hlutabréfamarkaði var sú mesta árið 2017 síðan árið 2008. Frá lágmarkinu árið 2010 hefur hún 25-faldast.

Mest voru viðskipti með bréf Marel (114,5 milljarðar), Icelandair Group (75,9 milljarðar) og Símans (59,3 milljarðar).

Flöktið á hlutabréfamarkaðnum var örlítið minna en árið 2016, en á móti nokkuð meiri en á árunum þar á undan.

Afnám hafta, Costco-áhrif og ríkisstjórnarslit

Nokkrir þættir lituðu hlutabréfamarkaðinn í ár. Gjaldeyrishöft voru afnumin í mars. Í kjölfarið af því hefur fjárfesting erlendra aðila á borð við vogunarsjóði og verðbréfasjóði aukist. Enn eru þó innflæðishöft á skuldabréfamarkaði, sem hafa átt drjúgan þátt í að beina fjármagni inn á hlutabréfamarkaðinn fremur en á skuldabréfamarkaðinn.

Sviptingar á smásölumarkaði höfðu einnig áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Stærsta breytingar þar var opnun Costco verslunarinnar í Kauptúni, sem knúið hefur ýmis innlend fyrirtæki til samruna og hagræðingar í rekstri með beinum og óbeinum hætti. Slitin á ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í september setti einnig svip sinn á markaðinn.

Tekið er að hægja á hagvexti og minnkaði hagnaður fyrirtækja í Kauphöllinni milli ára. Fyrirtæki hafa þar að auki staðið í talsverðri hagræðingu vegna mikillar launahækkana, styrkingar krónunnar, aukinnar samkeppni og verðhjöðnunar á vöru og þjónustu. Allt hefur þetta haft áhrif á gengi félaganna í Kauphöllinni. Lakari afkoma Icelandair Group og gott gengi Marel olli einnig togstreitu í þróun úrvalsvísitölunnar á árinu. Þá lækkaði Seðlabankinn stýrivexti þrisvar á árinu. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hélt áfram að lækka, sem lækkaði fjármögnunarkostnað fyrirtækja og hefur eflaust gert hlutabréf vænlegri fjárfestingarkost í augum fjárfesta.

Varðandi breytingar á stoðum hlutabréfamarkaðarins - fyrir utan afnám gjaldeyrishafta - var skortsölureglugerð Evrópusambandsins innleidd á árinu. Gagnsæi var aukið með birtingu Nasdaq Iceland á upplýsingum um heildarveðsetningu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Þess má geta tilkynnti FTSE Russell vísitölufyrirtækið í september að það væri með til athugunar að hleypa íslenskum félögum í vísitölur sínar að ári liðnu. Mun það að öllum líkindum ýta enn frekar undir sýnileika íslenska markaðarins á meðal erlendra fjárfesta.

Ein nýskráning átti sér stað á First North markaðnum, með skráningu Klappa Grænna Lausna, en engin skráning átti sér stað á aðalmarkaði.

Verðtryggð bréf gáfu vel af sér

Á skuldabréfamarkaði gáfu verðtryggð skuldabréf meira en tvöfalt betur af sér en óverðtryggð árið 2017. Þannig hækkaði verðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXIREAL) um 10,9%, en óverðtryggða vísitalan (NOMXINOM) um 5%. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 9,3%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.240 milljörðum árið 2017, sem samsvarar 5,0 milljarða veltu á dag. Árið 2016 nam dagsveltan 5,9 milljörðum. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 946 milljörðum, viðskipti með bankabréf 163 milljörðum og viðskipti með íbúðabréf 58,5 milljörðum. Þetta er 16% minni velta en í fyrra.