Eftir miklar sviptingar á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi síðustu vikuna virðist nokkuð jafnvægi hafa náðst á ný með 0,14% lækkun Úrvalsvísitölunnar. Heildarviðskiptin í dag námu 2,5 milljörðum króna, þar sem fjögur félög hækkuðu í virði, fimm stóðu í stað og 12 lækkuðu í virði.

Mestu viðskiptin voru með bréf í Arion banka, eða fyrir 433,1 milljón króna, en bréfin stóðu samt sem áður í stað í 80 krónum. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 336,7 milljónir króna, og lækkaði gengi bréfanna í þeim um 1,56%, niður í 126 krónur, sem var þriðja mesta lækkunin í kauphöllinni í dag.

Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Vís, eða um 1,72%, í 84 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 10,30 krónur. Gengi bréfa fasteignafélagsins Reita lækkaði svo mest, eða um 2,14%, í 105 milljóna króna viðskiptum og var lokagengið 68,70 krónur.

Brim hækkaði hins vegar mest, eða um 1,75%, upp í 37,75 krónur, í 56 milljóna króna viðskiptum. Þar á eftir kom Reginn, sem hækkaði um 1,04%, í 125 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa fasteignafélagsins í 19,40 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Iceland Seafood, eða um 0,48%, upp í 9,46 krónur, í 102 milljóna króna viðskiptum.
Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í dag að félagið hefði ákveðið að sameina starfsemi sína í Bretlandi á einum stað í Grimsby og byggja upp nýja aðstöðu þar með hátt í milljarðs króna fjárfestingu.

Breska pundið komið yfir 163 krónur

Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart evru og dönsku krónunni í dag, og fæst evran nú á 141,73 krónur og danska krónan á 18,966 íslenskar. Bandaríkjadalur hækkaði gagnvart krónunni um 0,38%, í 127,35 krónur og breska pundið hækkaði um 0,37%, í 163,14 krónur.

Norska og sænska krónan gaf svo eftir gagnvart þeirri íslensku, lækkaði sú fyrrnefnda um 0,04% í 13,727 íslenskar krónur en sú síðarnefnda lækkaði um 0,37%, niður í 13,404 krónur.