Alls nam veltan á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar 4,5 milljörðum króna í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,8% og stendur nú í 3.410 stigum, þó einungis 1,2% lægra en á þriðjudaginn þegar vísitalan náði sínum hæstu hæðum. Átta félög aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins og fimm græn.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka eða um 1,3% milljarðar en gengi bankans féll um 0,9% og stendur nú í 172,5 krónum á hlut. Kvika banki lækkaði einnig um 1,6 % í dag, mest allra félaga, en hlutabréfaverð beggja banka er þó enn við sögulegt hámark. Gengi Íslandsbanka hækkaði hins vegar um 0,3% í 423 milljóna veltu í dag og er nú komið í 123,4 krónur.

Marel féll um eitt prósent í dag og stendur í 958 krónum á hlut en gengi félagsins náði methæðum í 973 krónum þann 31. ágúst síðastliðinn.

Mesta breytingin á markaðnum í dag kom hjá Símanum sem hækkaði um 2,7% í 476 milljóna viðskiptum. Fjarskiptafélagið hefur hækkað um 44% í ár.