Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,4% í 4,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tuttugu af 22 félögum aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins.

Eimskip leiddi lækkanir en hlutabréfaverð flutningafélagsins lækkaði um meira en 3% í 240 milljóna veltu og stóð í 494 krónum á hlut við lokun markaðarins. Gengi Eimskips hefur lækkað um 17% á einum mánuði og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun júlí.

Hlutabréfverð Marels hélt áfram að falla og stóð í 449 krónum á hlut eftir 1,5% lækkun í 790 milljóna viðskiptum í dag.

Þá fór dagslokagengi Arion banka í fyrsta sinn frá því í lok júní undir 160 krónur á hlut en gengi bankans lækkaði um 1,9% í dag. Gengi Íslandsbanka féll einnig um 1,5% og stendur nú í 119,8 krónum.