Íslenska úrvalsvísitalan lækkaði um 0,77% í dag, en hún stendur nú í 1818,85. Alls hefur OMXI8 lækkað um 3,27% frá áramótum. Á móti hækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 0,24%. Óverðtryggða skuldabréfavísitala kauphallarinnar hækkaði um 0,11%, en verðtryggða skuldabréfavísitalan hækkaði um 0,41%.

Hagar og N1 voru einu félögin í kauphöllinni sem hækkuðu í dag. Hlutabréf í Högum fóru upp um 0,84% og hlutabréf í N1 um 0,14%.

Mestar lækkanir voru hjá Nýherja, sem féll um 2,31%. Gengi bréfanna er nú 16,90 krónur. Fasteignafélögin lækkuðu einnig. Reginn fór niður um 1,71% í 23 krónur og Eik um 1,68% í 8,80 krónur.

Viðskiptaverð Eimskipafélagsins er núna 271,50 á hlut, en gengi bréfanna lækkaði um 1,45% í dag. Icelandair er á genginu 32,30 og lækkaði um 1,52% í dag. Síminn lækkaði einnig, en um sem nemur 1,55%. Hluturinn í Símanum kostar 3,18 krónur.

Markaðsvísitala gamma lækkaði um 0,11%, en hún hefur hækkað um alls 8,25% á seinasta ári. Gildi markaðsvísitölunnar er nú 144.810 stig. Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,23% í 284.347 stig og vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 0,02% í 133.785.

Hlutabréfavísitala Gamma stendur í 392.925. Hún lækkaði um 0,79% í dag, en er upp um 1,25% frá áramótum. Alls hefur hún hækkað um 26,60% á seinasta ári.