Lokagildi Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í dag var 3849 stig og lækkaði vísitalan þar með fjórða daginn í röð og nemur samanlögð lækkun dagana 2,5%. Ef vísitalan er skoðuð frá mánðarmótum kemur hins vegar í ljós að hún hefur hækkað um 0,8% en hæsta gildi sínu náði hún síðastliðinn föstudag þegar lokagildið var 3947 stig.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka en þetta er í fjórða sinn á árinu sem vísitalan lækkar fjóra daga í röð. Í lok janúar lækkaði vísitalan um 2,5% en hingað til er það í eina skiptið sem vísitalan hefur lækkað fimm daga í röð. Næst lækkaði vísitalan fjóra daga samfleytt í lok apríl og nam sú lækkun samtals 2,6%. Um miðjan september lækkaði svo vísitalan um 1,7% í fjögurra daga lækkun.

Janúar- og septemberlækkanirnar voru ekki langvarandi því það tók vísitöluna ekki nema fimm daga að vinna upp hvora lækkun um sig. Lækkunarhrinan í lok apríl entist aftur á móti allan maímánuð og er það eini mánuður ársins þar sem hefur vísitalan lækkað. Lokagildi vísitölunnar þann 4. júní var 2654 stig eftir að hafa náð 2751 stigi 28. apríl. Það var hins vegar þá sem flugið virkilega hófst og hækkun vísitölunnar síðan þá fram til síðastliðins föstudags nemur tæpum 49% á einungis fjórum mánuðum segir í Hálffimm fréttum.