Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 5,68% og er komin niður fyrir fimm þúsund stiga múrinn en hún er 4.988 stig þegar þetta er skrifað, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan fór undir fimm þúsund stigum í fyrsta skipti síðan 21. nóvember árið 2005, samkvæmt upplýsingum greiningardeild Kaupþings.

Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] er eina félagið sem hækkað hefur það sem af er degi eða um 0,08%.

Exista [ EXISTA ] hefur lækkað um 11,3%, Spron [ SPRON ] hefur lækkað um 11,9%, FL Group [ FL ] hefur lækkað um 6,7%, Kaupþing [ KAUP ] hefur lækkað um 6,42% og Glitnir [ GLB ] hefur lækkað um 5,9%.

Breska vísitalan FTSE100 hefur lækkað um 2,9%, danska vísitalan OMXC hefur lækkað um 2,2%, norska vísitalan hefur lækkað um 4% og sænska vísitalan hefur lækkað um 3,5%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Gengi krónu hefur veikst um 2% og er 129 stig.