Úrvalsvísitalan hefur rétt kröftuglega úr kútnum síðustu tvo daga eftir lækkunarhrinuna undanfarið. Í dag var lokagildi vísitölunnar 3381 stig og nam hækkun dagsins 2,2%. Það sem af er ári hefur þriðjungur félaganna í Úrvalsvísitölunni hækkað um meira en 90% og rúmlega helmingur þeirra um meira en 60%.

12 mánaða hækkun Úrvalsvísitölunnar hefur aðeins tvisvar sinnum áður verið meiri en 60%. Fyrst í maí 1997 þegar 12 mánaða hækkun vísitölunnar náði 81% og síðan um miðjan febrúar árið 2000 þegar 12 mánaða hækkunin náði tæplega 64%.

Undanfarið hefur 12 mánaða verðbreyting vísitölunnar verið rúmlega 100% en eftir lækkanirnar undanfarið fór 12 mánaða hækkunin niður í 67% við lok markaða á þriðjudaginn. Síðustu tvö daga hefur vísitalan hins vegar hækkað um 165 stig sem gerir það að verkum að 12 mán hækkun við lok markaða í dag er 76%. Þrátt fyrir að andrúmsloftiið á hlutabréfamarkaði sé ef til vill ekki jafn glaðvært og í upphafi fjórðungsins erum við enn í mestu uppsveiflu sem um getur á íslenskum hlutabréfamarkaði segir í Hálffimm fréttum KB banka