Fyrir tæpu ári, þann 15. febrúar 2006, var lokagildi Úrvalsvísitölunnar 6.925 en eftir það hallaði hratt undan fæti. Það var ekki fyrr en í dag sem hærra lokagildi náðist á ný en úrvalsvísitalan var 6.930 stig í lok dags og er það jafnframt hæsta lokagildi frá upphafi eins og greiningardeild Landsbankans bendir á í Vegvísi sínum.

Þau félög sem hafa hækkað mest á árinu eru FL Group, Teymi, Actavis og Kaupþing, en þau hafa öll hækkað um meira en 10%.

Samkvæmt spá greiningardeildar Landsbankans um horfur á hlutabréfamarkaði má búast við enn frekari hækkunum á árinu. Úrvalsvísitalan hefur nú þegar hækkað um 8% það sem af er ári en við teljum að markaðurinn geti hækkað um 20-25% á árinu. Ef 25% hækkun verður að veruleika er ljóst að Úrvalsvísitalan mun rjúfa 8.000 stiga múrinn fyrir árslok.